Heimir Hallgrímsson þjálfari Írlands hefur valið þjálfarateymi sitt eftir að hafa verið ráðinn til starfa.
John O´Shea verður aðstoðarþjálfari Heimis en þeir funduðu saman á dögunum og náðu saman. O´Shea átti frábæran feril sem leikmaður hjá Manchester United og fleiri liðum.
Þá kemur Guðmundur Hreiðarsson með Heimi til Írlands en hann verður markmannsþjálfari liðsins líkt og hann var hjá Heimi með íslenska landsliðinu og landsliði Jamíka.
Paddy McCarthy verður einnig í teyminu en hann er þjálfari hjá Crystal Palace. „Ég er ánægður að fá bæði John og Paddy, það var í forgangi hjá mér að fá John með mér í teymið. Ég fór og heimsótti hann við fyrsta tækifæri og við ræddum hans hlutverk, við erum með sömu hugmyndir,“ segir Heimir.
„Guðmundur hefur verið lykilmaður í mínum þjálfarateymum í gegnum ferilinn og ég er ánægður að fá hann til Írlands. Núna er öll einbeiting á leikina gegn Englandi og Grikklandi í september.“
John O´Shea er sáttur með að koma inn í teymið. „Það vita allir hug minn fyrir landsliði okkar, það er frábært að koma inn í teymið hans Heimis,“ segir sá írski.