Kylian Mbappe var ekkert að tvínóna við að finna sér samanstað í höfuðborg Spánar eftir að hafa gengið í raðir Real Madrid fyrr í sumar.
Frakkinn gekk í raðir Real Madrid á frjálsri sölu frá Paris Saint-Germain í sumar, en skiptin höfðu legið í loftinu. Mikil eftirvænting er fyrir því að sóknarmaðurinn fari að sýna listir sínar í hvítu treyjunni.
Mbappe mun hafa það gott utan vallar líka því hann hefur keypt sér glæsihús í La Finca, sem er tæpum 13 kílómetrum frá miðborg Madrídar. Húsið kostaði um 1,6 milljarð íslenskra króna, en það var áður í eigu Gareth Bale.
Í húsinu eru átta svefnherbergi, ellefu baðherbergi og bílskúl sem rúmar sex bíla. Þar eru einnig sundlaugar og bíósalur og svo golf- fótbolta- og körfuboltavellir.