„Þetta er svekkjandi. Ég myndi ekki segja vonbirgði. Mér fannst við frábærir í dag allan leikinn. Þetta er svekkjandi en þetta var afbragðs frammistaða,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, við Stöð 2 Sport í kvöld eftir jafntefli gegn Víkingi í toppslag.
Blikar leiddu 1-0 allt þar til í uppbótartíma þegar gestirnir úr Fossvogi jöfnuðu. Höskuldur var þó ansi sáttur með frammistöðu sinna manna.
„Viðhorfið og andinn. Við sköpum fullt af færum og hann ver oft vel í markinu. Frá fremsta manni til aftasta, menn voru að hlaupa fyrir hina og leggja á sig. Mér fannst við vera með þá úti á velli. Þeir eru alltaf hættulegir og klínískir en þetta var bara flott.“
Höskuldur mun ekki eyða miklum tíma í að svekkja sig.
„Þetta er langt mót og við tökum þessa frammistöðu áfram.“