Jurgen Klopp stjóri Liverpool hefur sent væna sneið á Manchester United og Erik ten Hag fyrir það hvernig félagið höndlaði málefni Jadon Sancho.
Eftir rúm tvö ár á Old Trafford var Sancho hent í frystikistuna og lánaður til Dortmund.
Hann og Ten Hag náðu ekki saman og fóru í stríð opinberlega sem endaði með því að Sancho var bannað að æfa með United liðinu.
„Ef heimurinn missir trúna á leikmanni, þá verður stjórinn að vera sá sem styður við leikmanninn,“ sagði Klopp um Sancho þegar hann ræddi málin á kveðjufundi í Liverpool í gær.
Klopp hefur lokið störfum á Anfield og hefur verið að kveðja fólkið undanfarna daga.
„Það er ekki hægt að kaupa það að leikmaður sé vonlaus eins og önnur félög gera. Kaupa leikmann á 80 milljónir punda og senda hann svo út á lán.“