Cristiano Ronaldo var langt frá því að vera bestur í teignum er hann spilaði með Manchester United á sínum yngri árum.
Þetta segir Rio Ferdinand, fyrrum leikmaður liðsins, en hann og Ronaldo léku saman í dágóðan tíma.
Ronaldo er af mörgum talinn einn besti ef ekki besti leikmaður sögunnar en er í dag í Sádi Arabíu.
Ferdinand var beðinn um að nefna þann leikmann sem væri bestur í að klára færi innan teigs og kom Ronaldo ekki til greina.
,,Ég held að allir aðrir framherjar í heiminum myndu taka undir þessi ummæli,“ sagði Ferdinand og nefndi þar Ruud van Nistelrooy sem lék með Man Utd við góðan orðstír.
Leikstíll Ronaldo hefur breyst mikið síðan hann spilaði með Ferdinand en hann er stórhættulegur innan teigs í dag.
Ferdinand nefndi aðra leikmenn á borð við Ole Gunnar Solskjær, Andy Cole, Teddy Sheringham og Wayne Rooney þegar kom að færanýtingu.