Flugvél með spænska knattspyrnuliðið Cadiz innanborðs þurfti að nauðlenda vegna vélarbilunnar í gær. Átti liðið að ferðast til El Salvador en hefur förinni verið aflýst.
Cadiz lék í efstu deild Spánar, La Liga, á leiktíðinni sem er að klárast en féll þaðan. Var liðið á leið til El Salvardor að mæta landsliðinu þar í leik til heiðurs hinum 66 ára gamla Jorge Gonzalez, sem er þaðan og er einnig goðsögn hjá Cadiz. Er hann af mörgum talinn besti leikmaður í sögu félagsins.
Vélin átti að fara í loftið í gærmorgun en var fluginu seinkað til um 21 í gærkvöldi. Skömmu eftir brottför frá Jerez flugvelli nauðlenti vélin í Sevilla vegna vélarbilunar. Því var hætt við ferðina í bili.
Forseti Cadiz, Manuel Vizcaino, segir leikmenn hafa verið í sjokki.
„Þetta var óhugnanlegt. Nú verðum við að fara aftur til Cadiz en við viljum endilega finna nýja dagsetningu með vinum okkar í El Salvador,“ segir hann jafnframt.