Bruno Fernandes, leikmaður Manchester United, hefur verið með eiginkonu sinni Ana síðan hann var aðeins 16 ára gamall.
Fernandes hefur sjálfur tjáð sig um sambandið og hvenær þau kynntust en á þeim tíma var lítið til hjá þeim portúgalska og lék lífið ekki beint við hann.
Í dag fær Fernandes um 240 þúsund pund á viku fyrir að spila á Old Trafford og er óhætt að segja að það séu gríðarlega há laun.
Í byrjun sambandsins var það hins vegar Ana sem sá um að dekra við kærasta sinn og borgaði fyrir allt það sem þau gerðu saman.
,,Ana hefur verið með mér í þessu ferðalagi síðan við vorum 16 ára gömul,“ sagði Fernandes.
,,Við hittumst fyrst sem táningar og þá byrjaði sambandið. Ég var ekki að þéna neitt sem fótboltamaður.“
,,Hún var í nokkuð góðri vinnu og vann sem dómari í fútsal um helgar. Hún dæmdi þrjá til fjóra leiki í röð á laugardögum og eftir það þá fórum við í bíó.“
,,Sjálfur átti ég lítinn pening á þessum tíma svo Ana var sú sem þurfti að borga fyrir miðana, það sama gerðist þegar við fórum út að borða. Jafnvel á pítsastöðum þá sá hún um að borga.“