Marc Andre ter Stegen, markvörður Barcelona, harðneitar þeim sögusögnum að hann hafi beðið forseta félagsins, Joan Laporta, um að reka stjóra liðsins, Xavi.
Búið er að taka ákvörðun um að reka Xavi úr starfi en Hansi Flick, landi Ter Stegen frá Þýskalandi, mun taka við liðinu.
Miðillinn Barca Reservat fullyrti það að Ter Stegen hafi rætt við Laporta og greint frá því að leikmenn væru ósáttir með vinnubrögð þjálfarans.
Talað er sérstaklega um eitt atvik en Xavi á að hafa baunað á leikmenn liðsins fyrir mistök í tapi gegn liði Girona.
Ter Stegen harðneitar þessum sögusögnum og segist aldrei hafa farið á bakvið Xavi.
,,Ég samþykki það ekki að einhver sé að nota mitt nafn til að búa til eitrað andrúmsloft vegna falsfrétta,“ sagði Ter Stegen.
,,Ef ég hef eitthvað að segja þá mun ég alltaf segja það við manneskjuna sjálfa.“