Manchester United hefur hlerað fjóra knattspyrnustjóra sem gætu hugsanlega tekið við í sumar. Þetta kemur fram í enskum miðlum.
Framtíð Erik ten Hag, stjóra United, er í mikilli óvissu. Liðið hafnaði í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar á leiktíðinni og endaði á botni síns riðils í Meistaradeildinni. Lærisveinar Ten Hag eru þó á leið í úrslitaleik enska bikarsins á laugardag, þar sem andstæðingurinn verður Manchester City.
Miðlar á borð við Times og ESPN segja frá því að Thomas Frank hjá Brentford og Kieran McKenna, sem kom Ipswich í upp í ensku úrvalsdeildina á dögunum, séu á blaði.
Auk þess eru þar Thomas Tuchel, sem er að hætta sem stjóri Bayern Munchen og Mauricio Pochettino, sem hefur yfirgefið Chelsea.
Það hefur ekki verið tekin ákvörðun með framtíð Ten Hag en miðlarnir segja að Sir Jim Ratcliffe, nýr hluthafi í United, sé að þreifa fyrir sér.