Óskar Hrafn Þorvaldsson fyrrum þjálfari Breiðabliks og Haugesunds er líklega á leið í Stúkuna á Stöð2 Sport þar sem fjallað er um Bestu deild karla. Kristján Óli Sigurðsson sagði frá þessu í Þungavigtinni.
Sagt var frá því að Óskar og Guðmundur Benediktsson sem stýrir þættinum hefðu sést funda saman í vikunni á Kringlukránni.
Óskar Hrafn sagði upp störfum hjá Haugesund á dögunum eftir sex umferðir í norsku úrvalsdeildinni, vakti uppsögn hans mikla athygli en Óskar hefur ekki viljað tjá sig.
„Ég frétti af þessum fundi, eru þeir að taka saman við KR í haust eða er hann á leið í Stúkuna. Það myndi gera þann þátt mjög skemmtilegan,“ sagði Mikael Nikulásson.
Óskar Hrafn gerði Breiðablik að Íslandsmeisturum árið 2022 en eftir síðustu leiktíð hélt hann til Noregs en stoppaði stutt og gæti nú endað í stúkunni hjá Gumma Ben.