Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari telur að forystufólk KSÍ ætti að segja af sér vegna þess að Albert Guðmundsson er ekki í landsliðshópi Íslands af þessu sinni.
Ástæðan er sú að KSÍ setti fyrir nokkrum árum reglur sem kveða á um það að sá sem sé með mál á borði lögreglu eða ákæruvaldsins geti ekki verið í landsliðshópnum. Ástæðan er að niðurfelling á máli gegn Alberti var kærð á dögunum, reglur KSÍ banna þar með Age Hareide að velja Albert fyrir leiki gegn Hollandi og Englandi.
Albert var kærður á síðasta ári fyrir kynferðisbrot en eftir rannsókn var málið fellt niður, litlar sem engar líkur voru taldar á sakfellingar.
„Þetta er alveg furðulegt. Fyrirsvarsmenn KSÍ sem taka þá ákvörðun að hafa ekki besta íslenska leikmanninn með í landsleik ættu að skammast sín og helst að segja af sér trúnaðarstörfum fyrir sambandið,“ segir Jón Steinar í ummælum sem hann lætur falla á Facebook síðu Mannlífs.
Jón Steinar heldur áfram og svarar fólki, hann segir að KSÍ geti vissulega sett sér reglur en segir háttsemina hins vegar forkastanlega.
„Þetta eru hins vegar félagasamtök sem yfirleitt mega setja sér starfsreglur sjálf. Þá er bara eftir að svara því hvort annað gildi hér því þetta er íþróttasamband á landsvísu. Þeir sem eru órétti beittir geta því ekki leitað annað með þá hagsmuni sem brotið er gegn. Ekki eru til dómafordæmi um þetta svo við verðum að fara varlega. Það breytir því hins vegar ekki að háttsemi sambandsins er svo forkastanleg að engu tali tekur.“