Age Hareide landsliðsþjálfari Íslands mátti ekki velja Albert Guðmundsson í landsliðshóp sinn fyrir leikina gegn Englandi og Hollandi sem eru í júní.
Ástæðan er að niðurfelling á máli gegn Alberti var kærð á dögunum, reglur KSÍ banna þar með Hareide að velja Albert.
Albert var kærður á síðasta ári fyrir kynferðisbrot en eftir rannsókn var málið fellt niður, litlar sem engar líkur voru taldar á sakfellingar.
„Það eru leikmenn sem ég vildi velja, vegna meiðsla þá varð ég að sleppa einum. Vegna regluverksins sem KSÍ er með þá má ég ekki velja leikmann,“ sagði Hareide.
„Það er Albert,“ bætti sá norski við en konan sem kærði Albert, kærði niðurfellingu málsins.
Niðurfelling málsins var kærð þegar Albert var mættur í landsleiki Íslands í mars þar sem hann var magnaður í sigri á Ísrael og skoraði svo eina mark liðsins í tapi gegn Úkraínu.
Hann minntist svo á að líklegt væri að Albert væri að skipta um félag og líklega væri hausinn á honum þar. „Við hefðum átt spjall um það, reglurnar hjá KSÍ eru á hreinu,“ sagði Hareide en Albert hefur verið frábær með Genoa á Ítalíu í vetur og er líklega á förum.