Thiago Alcantara er á förum frá Liverpool í sumar þegar samningur hans rennur út. Hann kveður stuðningsmenn félagsins með einlægri kveðju.
Hinn 33 ára gamli Thiago gekk í raðir Liverpool 2002 frá Bayern Munchen. Hann spilaði 98 leiki fyrir félagið en tími hans á Anfield hefur einkennst af meiðslum.
Liverpool staðfesti í morgun að Thiago sé á förum og leikmaðurinn sendi stuðningsmönnum kveðju í kjölfarið.
„Þakklæti er mér efst í huga þegar ég kveð ykkur. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa verið hluti af þessu félagi, þessari borg og þessu samfélagi. Óendanlegur stuðningur ykkar hefur verið ótrúlegur. Þið eruð einstakur hópur stuðnignsmanna,“ skrifar Thiago meðal annars í kveðju sinni.
„Liðfélagar, þjálfarar, starfsfólk. Þið eigið öll þátt í þessu. Til ykkar stuðningsmanna, ég á engin orð. Vitið bara að ég verð ykkur þakklátur að eilífu. Þetta var heiður. Ég óska ykkur alls hins besta alltaf.“