Erik ten Hag stjóri Manchester United segir að stuðningsmenn félagsins skilji af hverju illa hefur gengið í vetur, stjórinn kennir meiðslum og breytingum um.
United leikur sinn síðasta heimaleik á Old Trafford í kvöld og telur Ten Hag að hann verði áfram í brúnni á næstu leiktíð.
„Að ég sé að kveðja? Mér líður ekki þannig og ég sé hlutina ekki þannig,“ segir hollenski stjórinn sem er svo sannarlega í heitu sæti.
„Ég mun ekki labba um völlinn eftir leik og hugsa þannig. Þið hafið oft spurt mig og svarið er það sama.“
„Í gegnum góða og slæma tíma stöndum við saman og stuðningsmenn okkar sanna það. Við erum saman í þessu.“
Ten Hag segist ekki upplifa það að stuðningsmenn vilji sig burt og að allir sem hann hitti séu kurteisir og skilji stöðu liðsins.