Mikel Arteta, stjóri Arsenal, vill ólmur halda miðjumanninum Jorginho hjá félaginu á næstu leiktíð.
Samningur Ítalans er að renna út en miðað við það sem Arteta sagði á blaðamannafundi í dag verður hann framlengdur.
„Við viljum að Jorginho verði áfram hjá okkur og hann veit það,“ sagði Arteta, en Jorginho gekk í raðir Skyttanna frá Chelsea á miðju síðasta tímabili.
„Ég myndi elska að halda honum og hann veit það. Félagið styður það einnig.“
Næsti leikur Arsenal er gegn Bournemouth á morgun en liðið gerir sér enn vonir um að skáka Manchester City í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.