Gary Martin var fyrr í dag lánaður í Víkings Ólafsvík sem leikur í 2. deild karla en hann kemur til félagsins frá Selfossi. Enski framherjinn var ekki í plönum Selfoss eftir að Bjarni Jóhannsson tók við.
Samkvæmt heimildum 433.is mun Selfoss halda áfram að borga stóran hluta af myndarlegum launapakka Gary Martin sem hann er með hjá félaginu.
Heimildarmaður 433.is segir að Gary sé með um 800 þúsund krónur í laun á mánuði hjá Selfoss sem féll úr Lengjudeildinni síðasta sumar og leikur því í 2. deildinni í sumar líkt og Ólafsvík.
Selfoss heldur áfram að borga stóran part af þeim launum sem Gary er með.
Gary þarf ekki að kynna fyrir áhugamönnum um íslenska knattspyrnu. Hann hefur leikið með ÍA, KR, Val, ÍBV og Selfossi á ferli sínum hér á landi. Þá hefur hann skorað 179 mörk í 329 leikjum á Íslandi. Hann hefur einu sinni orðið Íslandsmeistari, tvívegis orðið bikarmeistari og í þrígang hefur hann verið markakóngur í efstu deild.