Stjórn KSÍ hefur samþykkt launakjör Þorvaldar Örlygssonar formanns KSÍ. Frá þessu segir í nýjustu fundargerð sem sambandið hefur nú birt.
Ekki kemur fram nákævmlega hvað Þorvaldur mun þéna í starfi en líklega verða laun hans nálægt því sem forveri hans hafði.
Vanda Sigurgeirsdóttir fékk 20,9 milljónir í laun hjá KSÍ á síðasta ári.
„Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ vék af fundi og tók Helga Helgadóttir fyrsti varaformaður við stjórn fundar. b. Rætt var um launakjör formanns og var lögð fram tillaga kjaranefndar þar að lútandi í samræmi við lög KSÍ. Stjórn samþykkti tillögu kjaranefndar og fól varaformanni að ganga frá skriflegum samningi í samráði við formann kjaranefndar,“ segir í fundargerð KSÍ.
Þorvaldur var kjörinn formaður KSÍ í lok febrúar en hann háði þá harða baráttu við Guðna Bergsson og Vigni Þormóðsson en hafði þar betur.