Roy Keane, Manchester United goðsögn og sparkspekingur, var allt annað en sáttur með sína menn eftir sigur á Coventry í gær.
Liðin mættust í undanúrslitum enska bikarsins og komst United í 3-0. B-deildarliðið jafnaði hins vegar í 3-3 á ótrúlegan hátt og var farið í framlengingu.
Þar var ekkert skorað en Coventry kom þó boltanum í netið í blálokin. Það var hins vegar dæmt af vegna afar tæprar rangstöðu í aðdragandanum. Því var farið í vítaspyrnukeppni og þar hafði United betur.
„Það var eins og heimurinn vildi að Coventry myndi vinna. Við sýndum mikinn karakter og það var mjög mikilvægt að vinna vítaspyrnukeppnina,“ sagði Harry Maguire eftir leik.
Keane var ekki sáttur með þessi ummæli miðvarðarins.
„Maguire segir að þeir hafi sýnt mikinn karakter. Ég sé ekki karakter í þessu liði, alls ekki,“ sagði hann eftir leik.
„Þetta er nánast komið á það stig að mér líki illa við þá. Þeir voru eiginlega hræddir við að vinna leikinn.
Það eru mörg vandamál í þessu United liði en þeir kláruðu verkefnið. Coventry leit út eins og úrvalsdeildarlið í framlengingunni og United eins og B-deildarlið.“