Ekki eru allir sannfærðir um að mark Coventry gegn Manchester United í undanúrslitum enska bikarsins í gær hafi verið dæmt réttilega af. Það er vakin athygli á þessu í enskum fjölmiðlum.
United komst í 3-0 gegn Coventry en B-deildarliðið jafnaði á ótrúlegan hátt og kom leiknum í framlengingu.
Þar hélt Victor Torp að hann hefði tryggt liðinu sigur í blálokin en markið var dæmt af þar sem VAR komst að þeirri niðurstöðu að Haji Wright hafi verið rangstæður í aðdragandanum.
Þegar myndin af línunum sem dómarar notuðust við til að komast að rangstöðudómnum er dregin inn virðist sem svo að línan fyrir Aaron Wan-Bissaka, varnarmann United, sé dregin yfir fót hans. Einhverjir vilja því meina að hefði hún verið dregin á réttum stað hefði Wright verið réttstæður.
Dæmi hver fyrir sig. Myndin er hér að neðan.