Miðjumaðurinn Luis Alberto hefur ekki áhuga á því að fá borgaða eina evru frá Lazio er hann yfirgefur félagið í sumar.
Alberto er ákveðinn í því að kveðja Lazio en hann er gríðarlega óvinsæll á meðal stuðningsmanna liðsins og vill ekki spila fyrir félagið til lengdar.
Samningur Alberto rennur út 2027 en hann vill einfaldlega að samningi sínum verði rift og vill komast annað án þess að Lazio þurfi að borga fyrir hans brottför.
,,Ég vona að ég geti notið þess að spila mína síðustu leiki hérna en við sjáum til. Þetta hafa verið erfiðari vikur en áður,“ sagði Alberto.
,,Ég ætla ekki að vera hluti af þessu verkefni á næsta ári, ég hef beðið félagið um að leysa mig undan samningi og ég vil ekki fá eina evru til viðbótar frá Lazio.“
,,Ég mun leyfa öðrum að njóta peninganna næstu fjögur árin, það er sanngjarnt miðað við hvað félagið hefur gefið mér.“
,,Að mínu mati er tíminn kominn fyrir mig til að leita annað og aðrir leikmenn geta notið launanna.“