Kobbie Mainoo, miðjumaður Manchester United, leyfði aðdáendum að spyrja sig nokkurra spurninga og fékk meðal annars spurningu um hvaða fyrrum leikmann félagsins hann hefði viljað spila með.
Hinn 18 ára gamli Mainoo hefur sprungið út með United á þessari leiktíð en hann hefði valið United goðsögnina Paul Scholes til að spila með sér á miðjunni.
„Ég myndi segja Paul Scholes, jafnvel þó það yrði þá ekki mikið um varnarleik. Sendingarnar hans, hreyfingarnar, hvernig hann gat klárað færi, hvað hann var klár. Hann var magnaður leikmaður,“ sagði Mainoo.
Þess má geta að Sir Jim Ratcliffe, einn af eigendum United, fékk svipaða spurningu fyrr í vor. Það er hvaða fyrrum leikmann hann vildi að myndi spila með liðinu í dag.
„Paul Scholes,“ sagði Ratcliffe þá án þess að hika.