Jarell Quansah, leikmaður Liverpool, þurfti að loka á hluta athugasemda á Instagram-síðu sinni vegna áreitis í gær.
Quansah gerði slæm mistök sem leiddu til marks Bruno Fernandes í 2-2 jafntefli gegn Manchester United í gær.
Í kjölfarið var baunað á kappann undir nýjustu færslu hans á Instagram og neyddist hann til að loka á hluta athugasemda undir henni.
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, stóð með sínum manni eftir leik.
„Hann er leikmaður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og ég er með slæmar fréttir fyrir hann. Þetta eru ekki síðustu mistökin sem hann gerir. Svona er lífið,“ sagði þýski stjórinn.
Klopp vonast til að Quansah slökkvi á samfélagsmiðlum.
„Þegar fyrirmyndirnar okkar voru að spila voru engir samfélagsmiðlar. Vonandi er hann nógu klár til að slökkva á þeim.“