Ofurparinu Loris Karius og Diletta Leotta var meinuð innganga á kynlífsklúbb í Berlín af ansi furðulegri ástæðu. Þýska blaðið Bild fjallar um þetta.
Karius er knattspyrnumaður sem áður var á mála hjá Liverpool en er nú hjá Newcastle. Leotta er sjónvarpskona á Ítalíu.
Þau skelltu sér í frí til Berlínar á dögunum og ætluðu þar á staðinn Barghain, sem þekktur er fyrir kynlífspartí og teknó tónlist.
Parið fékk hins vegar ekki inngöngu og miðað við samtal á milli Leotta og vinkonu hennar sem Bild vitnar í er það vegna jakka sem hún var í.
„Ég var í fallega jakkanum mínum, þessum gula. Með bros á vör heilsaði ég dyravörðunum en mér hefur aldrei verið hafnað svona,“ skrifaði Leotta.
Talið er að reglur Barghain kveði á um að gestir skulu vera í dökkum klæðnaði. Gulur jakki Leotta hefði því ekki fallið vel í kramið þar.