Það eru ekki allir sem kannast við nafnið ‘Jude the Cat’ eða kötturinn Jude en um er að ræða lukkudýr enska félagsins Queens Park Rangers.
Lukkudýrið má sjá á hverjum einasta leik QPR en nú hefur maðurinn í búningnum fengið sparkið frá félaginu.
Ástæðan er ansi sérstök en þessi ágæti maður sem er ónefndur fékk viðvörun frá félaginu þrisvar áður en hann var látinn fara.
Maðurinn var duglegur í að reyna við kvenkyns stuðningsmenn QPR á leikjum liðsins og má segja að hann hafi ekki beint verið að sinna sinni vinnu.
Yfirmenn mannsins fengu loksins nóg og rifu í gikkinn en hann hafði unnið fyrir félagið í þónokkur ár.
Þetta er líklega ekki það síðasta sem við sjáum af Jude en QPR mun að öllum líkindum ráða inn annan mann til að dansa og skemmta fólki á hliðarlínunni.