Ísak Óli Ólafsson hefur skrifað undir samning við FH út 2027. Hann kemur frá danska liðinu Esbjerg þar sem hann hefur verið síðan 2021.
Ísak Óli er uppalinn Keflvíkingur og er einmitt bróðir Sindra Ólafssonar markmanns FH. Hann hefur leikið 2 A-landsliðsleiki og 36 yngri landsliðsleiki.
“FH sem klúbbur hefur alltaf heillað mig. Þeir sýndu mikinn áhuga og kom í raun enginn annar klúbbur til greina. Aðstæðan hjá FH er sú besta á landinu að mínu mati og heillar það mikið. Svo er það þjálfarateymið sem er virkilega sterkt hjá FH og er ég spenntur að vinna með þeim.” sagði Ísak Óli.
Besta deildin hefst um helgina en Ísak Óli gæti spilað sinn fyrsta leik þegar liðið heimsækir Breiðablik á mánudag.