Það hefur vakið athygli margra þegar Pep Guardiola, stjóri Manchester City, skammar leikmenn sína úti á velli eftir leiki fyrir framan myndavélar og stuðningsmenn. Hann var spurður út í þetta á blaðamannafundi.
Nú síðast virtist spænski stjórinn skamma Jack Grealish úti á velli eftir jafnteflið við Arsenal um helgina. Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem hann gerir slíkt og fékk hann spurningu út í þetta.
„Ég geri þetta fyrir myndavélarnar og egóið mitt. Ég er frægastur í liðinu. Ég vil að myndavélunum líði vel þegar þær fara að sofa. Þess vegna geri ég þetta. Þess vegna gagnrýni ég leikmenn og læt þá finna fyrir hversu slakir þeir eru,“ sagði ansi kaldhæðinn Guardiola, sem var klárlega ekki til í að ræða þetta málefni nánar.
City tekur á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en liðið er í hörkutoppbaráttu við Arsenal og Liverpool.