„Þetta er kannski ekkert óeðlilegt miðað við leikmannakaup hjá Val. Þetta er búinn að vera fínn vetur fyrir okkur. Það hefur verið hljóðlátt í kringum okkur og ég held að ástæðan fyrir því sé kannski að við kláruðum okkar business snemma með Jón Guðna og Valda,“ sagði Arnar við 433.is á kynningarfundi Bestu deildarinnar í dag.
Arnar er brattur fyrir komandi leiktíð. Hans menn unnu Val í gær og urðu þar með meistarar meistaranna.
„Við vorum bara „on it“ í öllum þáttum leiksins. Þetta var flott frammistaða og akkúrat það sem þú vilt fá korteri fyrir mót. Þetta er vonandi ávísun á eitthvað gott.“
Víkingur er á leið í forkeppni Meistaradeildarinnar í ár og ætlar sér langt í Evrópu. Arnar og hans menn eru klárir í leikjaálagið sem því gæti fylgt.
„Ég held að það sé hægt að læra mikið af því hvernig við gerðum þetta 2022 og Blikum í fyrra. Við reynum að tína til hvað þeir gerðu vel og hvað fór úrskeiðis. Við erum með það í bakhöndinni að reyna að fara alla leið á öllum vígstöðvum. Ég kaupi bara ekki að það sé ekki hægt. En við þurfum líka að vera heppnir, heppnir með meiðsli og líka með drátt. Það er ekki líklegt að komast áfram ef þú færð Inter Milan í fyrstu umferð.“
Í leikmannakönnun sem opinberuð var á fundinum í dag var Víkingur kosið grófasta lið deildarinnar. Arnar var spurður út í þetta.
„Auðvitað ver maður börnin sín en mér finnst það bara þvæla ef ég á að segja alveg eins og er. Mér finnst við bara vel harðir. Það er mikill munur á að vera harður og grófur. En ég hef mjög gaman af þessu og ég fagna þessu eiginlega meira en að vera valinn númer eitt í spánni,“ sagði hann léttur.
Ítarlegt viðtal við Arnar er í spilaranum.