Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
Það skapaðist mikil umræða um það í síðustu viku þegar Gylfi Þór Sigurðsson var ekki valinn í landsliðshóp Age Hareide fyrir leikinn gegn Ísrael á morgun. Gylfi, sem er nú kominn til Vals eftir að hafa jafnað sig af meiðlsum, sagðist mjög ósáttur við ákvörðun Hareide í viðtali við 433.is.
Arnór Ingvi Traustason spilaði með Gylfa í gegnum gullaldarár landsliðsins. Hann var meðal annars spurður út í þetta í viðtali við 433.is hér í Búdapest í dag.
„Hann er frábær leikmaður. Ég hef áður hrósað honum mikið. Þetta er besti atvinnumaður sem ég hef á ævinni verið með. Ótrúlegur fótboltamaður,“ sagði Arnór.
Hann skilur ákvörðun Hareide þó það hefði ekki verið verra að hafa Gylfa með.
„Þjálfarinn velur liðið en það hefði alveg verið ágætt að vera með hann hérna.“
Gylfi sneri aftur í landsliðið í október og ætlar sér væntanlega að vera með í næsta landsliðsverkefni.
Ítarlegra viðtal við Arnór, þar sem komandi leikur gegn Ísrael er tekinn fyrir, má nálgast í spilaranum.