Nicolas Jackson, leikmaður Chelsea, er ljúflingur en hann kemur frá Senegal og ólst upp í bænum Ziguinchor þar í landi.
Mikil fátækt ríkir í Ziguinchor en Jackson vakti athygli fyrir knattspyrnuhæfileika sína á ungum aldri og svo heimsathygli er hann lék með Villarreal á Spáni.
Jackson er blóðheitur leikmaður og hefur fengið níu gul spjöld í úrvalsdeildinni í vetur – hann hefur þá einnig skorað níu mörk.
Framherjinn reynir eins og hann getur að hjálpa heimabæ sínum og fólkinu í Ziguinchor en fótbolti er mjög vinsæll í fjölmörgum Afríkulöndum.
Jackson hjálpaði mörgum ungum krökkum á tíma sínum hjá Villarreal og hefur haldið uppteknum hætti síðan hann samdi við Chelsea.
Senegalinn safnar legghlífum, gömlum takkaskóm, sokkum og treyjum sem afhendir svo ungum krökkum sem eru að stíga sín fyrstu skref í fótbolta.
Jackson fær þennan búnað frá liðsfélögum sínum en stjörnurnar eru ekki mikið í því að notast við sömu vöruna til lengdar.
Jackson þénar milljónir á viku fyrir að spila með Chelsea en er þó ekki á meðal launahæstu leikmanna liðsins.
,,Jackson er ljúflingur. Hann gerir allt sem hann getur til að hjálpa þeim börnum sem líta mikið upp til hans,“ er haft eftir vini leikmannsins.