Hareide hefur ekki mátt velja Albert í undanförnum landsleikjum vegna rannsóknar á meintu kynferðisbroti hans, sem nú hefur verið látið niður falla. Albert var kærður fyrir kynferðisbrot síðasta haust en hann hefur hafnað allri sök í málinu.
Lögregla hafði rannsakað málið sem fór á borð ákærusviðs sem ákvað að fella það niður, var það ekki talið líklegt til sakfellingar miðað við niðurstöðuna.
Eva Bryndís Helgadóttir, lögmaður konunnar sem kærði Albert, sagði við 433.is í vikunni að ekki sé búið að ákveða hvort þeirri ákvörðun verði áfrýjað. „Það liggur ekki fyrir ákvörðun um það. Fresturinn til þess er út 22.mars nk,“ sagði Eva Bryndís í skriflegu svari við fyrirspurn 433.is.
Miðað við regluverk KSÍ mætti Albert ekki spila með íslenska liðinu ef ákvörðuninni verður áfrýjað.
„Ég get ekki sagt mikið um það,“ sagði Hareide á blaðamannafundi í dag, spurður út í málið.
„Það eru reglur í sambandinu sem ég verð að fylgja. Það var synd fyrir Ísland og Albert.“
Sem fyrr segir er Hareide afar ánægður með að fá Albert aftur inn í hópinn, en kappinn hefur farið á kostum með Genoa.
„Ég hef verið í góðu sambandi við Albert. Það var mikilvægt fyrir Albert að vita að hann gæti spilað þegar væri er laus allra mála. Hann er það núna og er því með. Hann vill ólmur koma inn og hjálpa liðinu.“