Kobbie Mainoo, sem hefur heldur betur komið sterkur inn í aðallið Manchester United á þessari leiktíð, var ekki valinn í landsliðshóp Englands fyrir komandi verkefni.
Margir bjuggust við að hinn 18 ára gamli Mainoo yrði jafnvel í hópnum, en hann hefur spilað 19 leiki fyrir aðallið United á þessari leiktíð og skorað í þeim tvö mörk.
„Hann er að gera svo vel miðað við ungan aldur. Við höfum hingað til ekki hikað við að velja unga leikmenn í A-landsliðið en hann hefur ekki spilað marga leiki,“ segir Gareth Southgate, landsliðsþjálfari, um valið.
„Þetta er frábær reynsla sem hann er að fá með Manchester United. Hann lítur út eins og mjög sterkur karkakter.“
Um er að ræða síðasta landsliðshópinn sem Southgate velur áður en kemur að því að velja hópinn fyrir EM í Þýskalandi í sumar.