Síðustu fjórum leikjum 16-liða úrslita Evrópudeildarinnar var að ljúka.
Liverpool var svo gott sem komið áfram gegn Sparta Prag eftir 1-5 sigur í fyrri leiknum og var svipað uppi á teningnum í kvöld. Liverpool komst í 4-0 í fyrri hálfleik með mörkum Darwin Nunez, Bobby Clark, Mo Salah og Cody Gakpo. Tékkarnir minnkuðu muninn skömmu fyrir leikhlé.
Snemma í seinni hálfleik skoruðu heimamenn tvö mörk til viðbótar. Þar voru að verki Dominik Szoboszlai og Gakpo með sitt annað mark. Lokatölur 6-1, 11-2 samanlagt og Liverpool komið í 8-liða úrslit.
Atalanta er einnig komið áfram eftir 2-1 sigur á Sporting, en fyrri leik liðanna lauk 1-1. Þá dugði 1-0 sigur Brighton ekki gegn Roma, en ítalska liðið vann fyrri leikinn 4-0.
Loks vann Bayer Leverkusen ótrúlegan sigur á Qarabag. Fyrri leik liðanna lauk með 2-2 jafntefli og heimamenn í Leverkusen lentu aftur í brasi í kvöld. Qarabag komst í 0-2 en Jeremie Frimpong minnkaði muninn á 72. mínútu. Það stefndi í að gestirnir væru á leið áfram en þá tók Patrik Schick sig til og skoraði tvö mörk í uppbótartíma. Lokatölur 3-2 og samanlagt 5-4 fyrir Leverkusen.