Avram Grant fyrrum þjálfari Chelsea er verulega óhress með þau ummæli Age Hareide, landsliðsþjálfara Íslands, þar sem haft var eftir Hareide að hann væri ósáttur með að þurfa mæta Ísrael í næstu umferð. Grant ræðir við Morgunblaðið.
Grant er frá Ísrael en hann hefur farið víða á ferli sínum og meðal annars þjálfað West Ham, Portsmouth og Chelsea auk þess að hafa stýrt landsliði Ísrael.
Ísrael réðst inn á Gasa í október eftir að Hamas liðar höfðu framið fjöldamorð í Ísrael. „En ef þú spyrð mig persónulega þá myndi ég hika við að spila við Ísrael, eins og staðan er núna. Vegna þess sem er í gangi á Gasa, og vegna þess sem þeir hafa gert við konur, börn og aðra saklausa borgara,“ sagði Hareide meðal ananrs.
Ísland og Ísrael mætast á fimmtudag í næstu viku þar sem liðin eigast við í umspili um laust sæti á EM næsta sumar, sigurvegari þessa einvígis mætir Úkraínu eða Bosníu í úrslitaleik.
Grant er ekki sáttur með þetta en hann skilur ekki af hverju Hareide ákveður að blanda fótbolta inn í mál sem hann segir að Hareide hafi enga þekkingu á.
„Ég sá hvað þjálfari Íslands sagði. Ég þekki hann ekki persónulega en ég er ósáttur við að hann skuli blanda íþróttum saman við eitthvað sem hann hefur enga þekkingu á. En ég vil leggja fyrir hann nokkrar spurningar. Fyrst vil ég taka fram að ég er mótfallinn því að almennir borgarar séu fórnarlömb og það hryggir mig þegar slíkt gerist.“ segir Grant í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir ábyrgð Hamas-liða mikla í málinu. „En menn verða að muna að þetta hófst allt á fjöldamorði Hamas-liða. Ég vil því spyrja þjálfarann: Hvers vegna sagðir þú ekkert um fjöldamorðin í Ísrael 7. október? Hvers vegna sagðir þú ekki: Ég er niðurbrotinn vegna allra þeirra kvenna sem var nauðgað, vegna barnanna sem voru afhöfðuð, vegna gamla fólksins sem var brennt lifandi? Vegna foreldra sem voru skotin í augsýn barna sinna.“