Fyrr í vikunni sagði sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson frá því að Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson verði ekki valdir í íslenska landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Ísrael síðar í mánuðinum. Telur hann að Gylfi verði ósáttur ef hann verður ekki valinn í hópinn.
Um er að ræða undanúrslitaleik í umspili um sæti á EM í Þýskalandi í sumar. Hvorki Aron Einar né Gylfi hafa spilað fótbolta undanfarið vegna meiðsla. Aron Einar spilaði síðast með Al-Arabi fyrir hátt í tíu mánuðum síðan og Gylfi er án félags en hann rifti samningi sínum við danska félagið Lyngby einmitt vegna meiðsla sinna.
Gylfi hefur æft af krafti á Spáni undanfarið, meðal annars með liði Fylkis sem er þar í æfingaferð. Það mun þó ekki skila honum sæti í hópnum ef marka má fréttir.
„Ef Gylfi Þór Sigurðsson getur spilað í korter ætti hann að vera fyrsti maður upp í vél. Gylfi verður ekki sáttur ef hann verður ekki valinn,“ segir Kristján Óli í hlaðvarpinu Chess After Dark.
Leikur Íslands og Ísrael fer fram þann 21. mars í Ungverjalandi. Sigurliðið mætir Úkraínu eða Bosníu í úrslitaleik um sæti á Evrópumótinu í Þýskalandi.
Age Hareide landsliðsþjálfari mun tilkynna hóp sinn fyrir leikinn gegn Ísrael 15. mars.