Það er ljóst að Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands er með talsverðan hausverk áður en hann velur landsliðshóp sinn eftir um tvær vikur. Liðið er á leið í umspil um laust sæti á Evrópumótinu í sumar.
Íslenska liðið mætir Ísrael í undanúrslitum og sigurvegarinn úr því einvígi mætir Úkraínu eða Bosníu í úrslitaleik um farmiða á mótið.
Staðan á íslenskum landsliðsmönnum er ekkert sérstaklega góð, í raun mjög slæm þegar litið er yfir heildina.
Markverðir liðsins eru lítið að spila fyrir utan Elías Rafn Ólafsson sem spilar í næst efstu deild í Portúgal. Rúnar Alex Rúnarsson er varamaður í Kaupmannahöfn og Hákon Rafn Valdimarsson er ekki í hóp hjá Brentford, báðir skiptu um lið í janúar. Þá er Patrik Sigurður Gunnarsson ekki byrjaður að spila í Noregi, þar sem deildin er ekki farin af stað.
Eldri lykilmenn liðsins eru margir á nokkuð slæmum stað, Aron Einar Gunnarsson er á meiðslalistanum í Katar og um tíu mánuðir eru frá síðasta leik hans með félagsliði. Gylfi Þór Sigurðsson er án félags en æfir á Spáni, hann hefur glímt við meiðsli. Alfreð Finnbogason er mest á bekknum í Belgíu en kemur þó iðulega við sögu.
Yngri vonarstjörnur liðsins eru sumar í vondri stöðu, Orri Steinn Óskarsson fær ekki lengur að vera á meðal varamanna í liði FCK og Hákon Arnar Haraldsson hefur verið í mjög litlu hlutverki í Frakklandi.
Af lykilmönnum liðsins eru Jóhann Berg Guðmundsson, Sverrir Ingi Ingason og Willum Þór Willlumsson í góðri stöðu hjá sínu félagsliði. Þá er Kristian Nökkvi Hlynsson í góðum málum hjá Ajax.
Aðrir eru í ágætis málum en þegar litið er yfir síðasta landsliðshóp sem Hareide valdi í nóvember þá er staða leikmanna ekki góð þegar stutt er í stórt verkefni.
Hareide hefur þó fengið nýtt spil á hendi en Albert Guðmundsson má aftur mæta í verkefni landsliðsins eftir að rannsókn á á honum vegna meints kynferðisbrots var felld niður.
Markverðir:
Rúnar Alex Rúnarsson – FCK
Situr á bekknum í Kaupmannahöfn og fær líklega ekkert að spila fyrr en í sumar.
Hákon Rafn Valdimarsson – Brentford
Er ekki í leikmannahópi Brentford og spilar líklega ekkert fyrr en á næsta tímabili.
Elías Rafn Ólafsson – Mafra
Stendur vaktina í markinu í næst efstu deild í Portúgal
Varnarmenn:
Aron Einar Gunnarsson – Al Arabi
Hefur ekki spilað með félagsliði síðan í apríl á síðasta ári og er enn frá vegna meiðsla.
Guðmundur Þórarinsson – OFI Krít
Var á bekknum í síðasta leik en spilar flesta leiki í Grikklandi.
Hjörtur Hermannsson – Pisa
Var ekki í hóp í síðasta leik og er oftar en ekki ónotaður varamaður.
Guðlaugur Victor Pálsson – Eupen
Spilar alla leiki og er alltaf með allan tímann
Alfons Sampsted – Twente
Hefur misst sæti sitt í liði Twente á nýju ári og er mikið á bekknum.
Sverrir Ingi Ingason – Midtjylland
Silar alla leiki í dönsku úrvalsdeildinni og er á góðum stað.
Kolbeinn Birgir Finnsson – Lyngby
Er í sömu stöðu og Sverrir og fær traust í öllum leikjum.
Miðjumenn:
Ísak Bergmann Jóhannesson – Fortuna Düsseldorf
Er í stóru hlutverki í næst efstu deild Þýskalands og hefur spilað vel.
Hákon Arnar Haraldsson – Lille
Hefur því miður ekki spilað mikið í Frakklandi en byrjaði síðast leik og skoraði. Vonandi fleiri mínútur á næstunni.
Jóhann Berg Guðmundsson – Burnley
Byrjar flest alla leiki í ensku úrvalsdeildinni.
Arnór Ingvi Traustason – Norrköping
Sænska deildin fer ekki af stað fyrr en eftir landsleiki og því mun Arnór ekki spila neina alvöru leiki fram að því.
Gylfi Þór Sigurðsson – Án félags
Hefur hvorki spilað né æft með félagsliði frá því í nóvember og er án félags.
Willum Þór Willumsson – Go Ahead Eagles
Spilar alla leiki og er á góðum stað.
Kristian Nökkvi Hlynsson – Ajax
Er að gera góða hluti í Hollandi og spilar flestar mínútur hjá Ajax.
Stefán Teitur Þórðarson – Silkeborg
Byrjar alla leiki í dönsku úrvalsdeildinni og hefur spilað vel.
Sóknarmenn:
Alfreð Finnbogason – Eupen
Hefur ekki byrjað leik í febrúar en kemur iðulega við sögu.
Jón Dagur Þorsteinsson – OH Leuven
Var á bekknum í síðasta leik en byrjar oftast í Belgíu
Arnór Sigurðsson – Blackburn Rovers
Hefur misst sæti sitt í liðinu eftir þjálfaraskipti og hefur í síðustu fjórum leikjum verið á bekknum.
Mikael Neville Anderson – AGF
Hefur byrjað síðustu tvo leiki og er oftast í liðinu hjá AGF.
Orri Steinn Óskarsson – FC Köbenhavn
Kemst ekki lengur í hóp hjá FCK sem vekur talsverða furðu.