Jack Butland hefur staðfest það að hann hafi hafnað því að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina í janúar.
Um er að ræða enskan markmann sem á að baki níu landsleiki en hann spilar í dag með Rangers.
Nottingham Forest var tilbúið að tvöfalda laun Butland í janúar og hafði mikinn áhuga á að fá hann í sínar raðir.
Það kom þó aldrei til greina fyrir Butland að semja aftur á Englandi en hann er fyrrum markmaður Stoke og einnig Manchester United þar sem hann spilaði þó ekki leik.
,,Ég sagði nei um leið. Umboðsmaðurinn sagði mér frá tilboðinu og spurði hvað ég vildi gera,“ sagði Butland.
,,Ég sagði nei strax og hann var sammála mér. Rangers hafnaði líka tilboðinu svo allir voru á sama máli.“