Það er einn leikmaður sem hafði engan áhuga á að spila undir stjórn Frank Lampard hjá Chelsea og það er varnarmaðurinn Antonio Rudiger.
Rudiger spilar með Real Madrid í dag en hann missti sæti sitt hjá Chelsea á sínum tíma er Lampard var við stjórnvölin.
Það var eitthvað sem Rudiger var alls ekki vanur en hann leitaðist eftir því að komast burt í janúarglugganum án árangurs.
Rudiger vildi semja við Paris Saint-Germain í Frakklandi og hafði engan áhuga á að spila fyrir Lampard – hann fékk þó ósk sína ekki uppfyllta að lokum.
,,Ég get ekki tjáð mig nákvæmlega um hvað gerðist á þessum tíma en svona getur fótboltinn verið,“ sagði Rudiger.
,,Kannski var Lampard með sínar hugmyndir og taldi aðra leikmenn vera betri. Ég svaraði fyrir mig á vellinum sem er besta leiðin til að svara.“
,,Ég hef aldrei upplifað annað eins á ferlinum. Ég vildi fara, ég vildi svo innilega fara frá félaginu og semja við Paris Saint-Germain – það var mín ósk.“