Moldríku eigendur knattspyrnufélagsins Salford City leita nú að fjárfestum til að geta keppt við Wrexham í neðri deildum Englands.
Frá þessu greina enskir miðlar en Wrexham er í eigu Hollywood stjarnanna Rob McElhenney og Ryan Reynolds.
Wrexham þykir vera ríkasta lið neðri deildanna á Englandi og stefnir á að spila í efstu deild á næstu fimm eða sex árum.
Stórstjörnur reka lið Salford en það eru þeir David Beckham, Gary Neville, Nicky Butt, Ryan Giggs, Paul Scholes og Phil Neville.
Um er að ræða fyrrum leikmenn Manchester United sem eiga nóg af peningum en eru einnig að einbeita sér mikið að öðrum verkefnum.
Salford vill fá auðuga fjárfesta inn til að hjálpa liðinu að styrkja sig á næstu árum en liðið er í fjórðu efstu deild og situr í 19. sæti.