Pep Guardiola, stjóri Manchester City, óskar Kalvin Phillips alls hins besta á seinni hluta leiktíðar á láni hjá West Ham.
Phillips er á leið til West Ham frá City á láni út leiktíðina. Enski miðjumaðurinn gekk í raðir City fyrir síðustu leiktíð en hefur ekki tekist að setja mark sitt á liðið.
„Vonandi fær hann að spila þær mínútur sem ég gat ekki gefið honum,“ segir Guardiola.
„Hann er frábær manneskja og knattspyrnumaður. Annars væri hann ekki landsliðsmaður Englands. Ég vona að hann sýni hvað hann getur gert.“
Phillips er enskur landsliðsmaður og vill spila nóg af leikjum fyrir Evrópumótið í Þýskalandi í sumar.