Roy Keane fyrrum fyrirliði Manchester United á sér þann draum að verða aftur þjálfari, hann hefur ekki verið aðalþjálfari í að verða þrettán ár.
Keane gerði vel í sínu fyrsta starfi þegar hann tók við Sunderland en það gekk ekki alveg eins vel þegar hann tók við Ipswich en hann hætti með liðið árið 2011.
Síðan þá hefur Keane verið aðstoðarþjálfari Írlands, Nottingham Forest og Aston Villa en ekki fengið starf undanfarin ár og starfað í sjónvarpi.
„Ég væri til í annað tækifæri, ég veit alveg að það kemur ekki tilboð frá Real Madrid en þetta þarf að vera rétta starfið, rétta félagið og réttur samningur,“ segir Keane.
Keane hefði áhuga á því að taka við landsliði Írlands. „Ég hef fengið tilboð, en svo skoðar maður samninginn og spyr sig hvort þetta sé þess virði. Ég væri til í að fara aftur ef ég fæ réttan samning.“
„Ég hafði gaman af því að starfa í kringum landsliðið, ég kann vel við það þegar þú ert ekki á vellinum alla daga. Heldur frekar að velja rétta hópinn.“