Meiðslalisti Liverpool mun líta betur út í lok vikunnar þegar Andy Robertson, Trent Alexander-Arnold og Dominik Szoboszlai snúa aftur.
Robertson hefur verið lengi frá og snýr hann aftur á morgun þegar liðið heimsækir Fulham í deildarbikarnum.
Trent og miðjumaðurinn frá Ungverjalandi hafa verið frá í stutta stund og snúa aftur um helgina í bikarleik gegn Norwich.
„Robertson ræddi við læknirinn sem skar hann upp og fékk leyfi til að fara á fulla ferð,“ sagði Pep Lijnders, aðstoðarmaður Jurgen Klopp.
„Trent má byrja að æfa með liðinu undir lok vikunnar og getur vonandi spilað á sunnudag, Dominik verður líka klár þar.“
Robertson hefur verið frá í þrjá mánuði en hann meiddist á öxl og varð að fara í aðgerð vegna þess.