Ramy Abbas, umboðsmaður Mohamed Salah, hefur tjáð sig um meiðsli leikmannsins.
Salah fór meiddur af velli í leik Eygpta gegn Gana á Afríkumótinu á dögunum en hann var meiddur aftan á læri.
Margir stuðningsmenn Liverpool tóku andköf, enda einn allra mikilvægasti leikmaður liðsins.
„Meiðslin eru alvarlegri en var haldið í fyrstu. Hann verður frá í 21-28 daga,“ segir Abbas.
„Besti möguleiki hans á að taka frekar þátt í Afríkukeppninni er að fara í stífa endurhæfingu í Bretlandi og koma til baka um leið og hann er klár.“
Salah hefur verið magnaður fyrir Liverpool á leiktíðinni og er kominn með 14 mörk og 8 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er á toppi deildarinnar sem stendur.