Íþróttaspekingurinn Mikael Nikulásson var gestur í Íþróttavikunni sem kemur út alla föstudaga á 433.is, Hringbraut.is og í Sjóvnarpi Símans. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Gengi íslenska karlalandsliðsins á EM í handbolta hefur mikið verið í umræðunni undanfarið en liðið hefur þótt spila undir væntingum. Mikael gagnrýnir sérstaklega Gísla Þorgeir Kristjánsson.
„Það virðist ekki mega gagnrýna alla. Ég hef eiginlega ekkert séð um það að Gísli Þorgeir hafi verið hræðilegur í leiknum í gær (gegn Þýskalandi). Hann er íþróttamaður ársins. Ef Gylfi Þór Sigurðsson hefði spilað svona með íslenska landsliðinu í fótbolta fyrir 5-6 árum hefði allt orðið vitlaust,“ sagði hann.
Gísli var meiddur lengi og telja margir að það spili inn í.
„Það er eins og það sé verið að búa til framhald af einhverri sögu í Meistaradeildinni, þar sem hann vann úrslitaleikinn. En hann er engan veginn klár í þetta.“
Umræðan í heild er í spilaranum.