Knattspyrnuþjálfararnir Júlíus Ármann Júlíusson og Theodór Sveinjónsson stefndu Ungmennafélaginu Fjölni fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur vegna meintra vangoldinna launa. Tveir samhljóða dómar voru kveðnir upp í málinu í dag, 18. janúar.
Þjálfararnir tóku við þjálfun meistaraflokks kvenna hjá félaginu sem tveggja manna teymi og var tilkynnt um ráðninguna með frétt á vefsíðu Fjölnis 2. nóvember 2020. Þar segir:
„Það er Knattspyrnudeild Fjölnis sönn ánægja að tilkynna Júlíus Ármann Júlíusson og Theódór Sveinjónsson sem nýja aðalþjálfara meistaraflokks kvenna. Taka þeir við af Axel Erni Sæmundssyni sem hverfur til annarra verkefna innan félagsins.
Júlíus er reyndur og metnaðarfullur þjálfari sem þekkir vel til kvennaboltans en hann hefur gegnt starfi aðalþjálfara meistaraflokks kvenna Aftureldingar frá árinu 2015 þar sem hann stýrði liðinu meðal annars upp úr 2. deild árið 2017. Að auki hefur hann sinnt þjálfun hjá Gróttu í tæp 20 ár við góðan orðstír þar sem hann stýrði meðal annars meistaraflokki karla en hann var einnig sigursæll þjálfari þau 10 ár sem hann var við störf hjá Breiðablik. Júlíus hefur lokið UEFA-A þjálfaragráðu.
Theódór þekkjum við Fjölnismenn vel þar sem hann stýrði nokkrum yngri flokkum félagsins hér á árum áður og meistaraflokki kvenna í Landsbankadeildinni árið 2008. Síðustu ár hefur Theódór þjálfað yngri flokka Víkings með góðum árangri og jafnframt verið í þjálfarateymi meistaraflokks kvenna Víkings. Áður var hann þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Aftureldingu, Þrótti og aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna Vals sem varð Íslandsmeistari á árunum 2006 og 2007. Theódór hefur einnig lokið UEFA-A þjálfaragráðu.
Knattspyrnudeild Fjölnis bindur miklar vonir við þessa ráðningu og hlakka til samstarfsins á komandi tímabilum.“
Júlíus og Theodór fengu hvor um sig 320 þúsund krónur á mánuði í verktakalaun hjá félaginu. Þeim var síðan sagt upp skriflega í ágúst árið 2022. Þeir voru með fjögurra mánaða uppsagnarfrest í samningum sínum og var gert að vinna uppsagnafrestinn. Þeir neituðu því og sögðu það ómögulegt þar sem annar þjálfari hefði verið ráðinn í stað þeirra. Þeir kláruðu keppnistímabilið og hættu að mæta í vinnuna hjá Fjölni um miðjan september. Ágreiningur var um hvort túlka bæri ráðningarsamninginn þannig að þeir ættu að vinna af sér allan uppsagnarfrestinn eða láta af störfum eftir lok keppnistímabilsins.
Júlíus réði sig til starfa hjá KR á uppsagnarfrestinum og Theodór hjá Val. Dómari taldi hins vegar ekki liggja fyrir til hvaða starfa var verið að kalla þá til á uppsagnarfrestinum hjá Fjölni, ekki lægi fyrir að það snerist um þjálfun meistaraflokksins.
„Stefnandi hefur þannig ekki gert grein fyrir því hvort honum hefði í raun verið tækt að sinna starfi þjálfara meistaraflokks kvenna hjá stefnda ef eftir því hefði
verið leitað á uppsagnarfresti vegna starfa sinna hjá KR þar sem hann fór að vinna um haustið 2022. Óumdeilt er að samningssamband var enn milli aðila á þessum tíma. Þá hefur stefnandi ekki gert grein fyrir því hvort í greiðslum KR hafi falist tjónstakmörkun gagnvart starfi meistaraflokksþjálfara hjá stefnda eða hvort þær greiðslur hafi einvörðungu komið á móti greiðslum fyrir þjálfun yngri flokka hjá stefnda sem hann sinnti áður samhliða starfi meistaraflokksþjálfara, sbr. 1. mgr. 68. gr., sbr. 1. mgr. 44. gr. laga um meðferð einkamála,“ segir í dómsniðurstöðunni í máli Theodórs og nær samhljóða texti er í dómnum í máli Júlíusar.
Niðurstaða í báðum málum var að Fjölnir er sýknaður af kröfum þjálfaranna, en þeir kröfðust hvor um sig 320 þúsund króna frá félaginu. Málskostnaður fellur niður.