Liðin mættust hér á landi í júní 2019 og vann Ísland glæsilegan 2-1 sigur. Aðal fréttaefnið í kringum leikinn var þó stóra uppþvottaburstamálið. Fjöldi fjölmiðla ræddi við Emre við komuna til Íslands en tyrkneska liðið hafði þurft að þola mikla seinkun. Innan um alla hljóðnemana leyndist svo uppþvottabursti sem ferðamaður var með og ákvað að grínast aðeins.
Tyrkneskt samfélag tók þessu mjög illa og sendi íslenskum landsliðsmönnum sem og almenningi ljót skilaboð. Það kom þó í ljós að maðurinn með uppþvottaburstann var belgískur ferðamaður.
„Þeir urðu svo móðgaðir. Allir í landsliðinu fengu svona 150 skilaboð frá Tyrkjum á Instagram. Svo spiluðum við Tyrki úti seinni í þessari undankeppni. Ég gleymi því aldrei þegar þjóðsöngurinn okkar var spilaður. Ég hef aldrei heyrt svona flaut. Maður nánast þurfti að halda fyrir eyrun,“ sagði Arnór í Chess After Dark.
„Þetta var alveg gróft. Þeir voru að reyna að finna hver þetta var en svo var þetta ekkert Íslendingur. Það var það besta við þetta.“