Leiðinlegar uppákomur áttu sér stað í leik 3. flokks Fjölnis gegn Leikni í Reykjavíkurmótinu á sunnudag en tveir leikmenn síðarnefnda liðsins hafa verið sakaðir um að beita andstæðinga sína ofbeldi á velllinum og sýnt af sér ógnandi hegðun eftir hann. Foreldrar leikmanna Fjölnis eru uggandi vegna málsins en málið er komið inn á borð KSÍ.
Leikurinn fór fram í Egilshöll þar sem Fjölnir vann 14-0 sigur. Ýmislegt virðist þó hafa gengið á því þjálfarar og foreldrar leikmanna Fjölnis saka unga leikmenn Leiknis hreinlega um ofbeldi. Þá ber skýrslu KSÍ og frásögn viðstaddra ekki saman en samkvæmt leikskýrslunni fékk einn leikmaður Leiknis rautt spjald í leiknum en samkvæmt þeim sem voru á vellinum fóru tvö rauð spjöld á loft.
Að leik loknum var haft samband við lögreglu og hún látin vita af málinu en einnig var haft samband við Knattspyrnusambandið. Samkvæmt heimildum 433 var því haldið fram að leikmenn Leiknis hefðu verið í kringum svæðið í Egilshöll eftir leik og viljað gera upp málin.
Hjá Leikni er málið í skoðun en félagið fékk veður af þessum ásökunum í gær og ætlar að taka málið áfram,. „Það er ekkert sem við getum gefið út, það eru ásakanir. Það er verið að skoða þetta, við fréttum af þessu í gær og skoðum málið hjá okkur núna,“ segir Margeir Ingólfsson, þjálfari 3 flokks karla hjá Leikni.
Einn af þjálfurum 3 flokks karla hjá Fjölnir ritaði færslu í hóp fyrir foreldra um málið og fékk þar mikil og sterk viðbrögð. „Í hálfleik kom upp staða sem ég hef aldrei upplifað áður í fótbolta sem betur fer. Leikmaður Leiknis Reykjavíkur réðst á okkar leikmann og kýldi hann í höfuðið. Við lítum alvarlegum augum á þetta og málið er í vinnslu innahús hjá okkur. Búið er að hafa samband við KSÍ og Bjössi yfirþjálfari hafði samband við Leiknir. Þetta er hegðun sem á ekki að sjást í fótbolta,“ skrifar Matthías Ásgeir Ramos Rocha, annar af þjálfurum liðsins.
Leikmenn Fjölnis voru samkvæmt foreldrum smeykir að leik loknum og fóru einhverjir þeirra út úr Egilshöll bakdyramegin til þess að sleppa við meira áreiti.
Foreldrar leikmanna í liði Fjölnis voru nokkuð uggandi vegna málsins og ræddu það í spjallhópi foreldra. Einn þeirra hafði samband við DV en vildi þó ekki blanda nafni sínu í þessa umræðu.
„Í stuttu máli höguðu tveir leikmenn Leiknis sér eins og villidýr, einsettu sér að slasa andstæðinga sína að því er virtist og veittust að þeim með munnsöfnuði sem ekki er hafandi eftir,“ segir þessi foreldri í samtali við DV.
Foreldrið segir að leikmenn Leiknis sem hafi misst stjórn á sér. „Þeir vildu innleiða lögmál götunnar inn í fótboltaleik og voru félaginu sínu til skammar. Þeir brugðust liðsfélögun sínum og reyndu að hóta, slasa og ógna andstæðingum sínum á meðan leik stóð, og löngu eftir að honum var lokið.“
Í umræðuhópi á meðal foreldra hjá Fjölni er málið rætt og er leikmönnum liðsins hrósað fyrir hvernig þeir tókust á við þessa erfiðu uppákomu í leiknum. Þá er því haldið fram að umræddir leikmenn Leiknis hafi mætt upp í Spöng, verslunarmiðstöð rétt hjá Egilshöll, í „leit að leiðindum.“ Haft var samband við lögregluna sem hafði þó enginn afskipti af neinu.
Félögin ræða nú sín á milli um málið og freista þess að leysa það í bróðerni.