Skemmtikrafturinn Bolli Már Bjarnason er gestur í nýjasta þætti Íþróttavikunnar, sem kemur út á föstudögum á 433.is, Hringbraut.is og undir hlekk Hringbrautar í Sjónvarpi Símans. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Þorvaldur Örlygsson tilkynnti í vikunni að hann ætlaði í framboð til næsta formanns KSÍ. Guðni Bergsson hafði áður boðið sig fram. Sem stendur virðist barátta þeirra hnífjöfn.
„Þorvaldur á svolítið eftir að koma fram og segja hvað hann ætlar að gera. Þetta gæti farið að snúast ef hann kemur fram með öflugar pælingar,“ sagði Hrafnkell um málið.
Guðni var áður formaður KSÍ. Hann sagði upp störfum sem formaður árið 2021 eftir mikið fjaðrafok en í hans formannstíð var KSÍ sakað um að bregðast ekki við meintu ofbeldi landsliðsmanna.
„Toddi hefur það svolítið fram yfir Guðna að hann er með hreint blað í þessum efnum,“ sagði Helgi.
„Það hjálpar honum ekki að hafa verið þarna áður en á sama tíma fannst manni þetta ekki alveg sanngjarnt. Maður væri til í að sjá hann fá tíma í eðlilegu umhverfi,“ sagði Bolli að endingu um málið.
Umræðan í heild er í spilaranum.