Ansi óheppilegt atvik átti sér stað á dögunum sem tengdist sjónvarpsstjörnunni Dean Gaffney sem og varnarmanninum Wesley Fofana.
Fofana er leikmaður Chelsea á Englandi en hann hefur glímt við meiðsli í dágóðan tíma og hefur lítið spilað.
Fofana kostaði Chelsea 70 milljónir punda á sínum tíma en hann var áður leikmaður Leicester City og stóð sig vel.
Frakkinn lenti í því að keyra á Gaffney fyrir utan skemmtistað í London sem varð til þess að leikarinn viðbeinsbrotnaði.
Gaffney er 45 ára gamall og er þekktur fyrir hlutverk sitt í þáttunum EastEnders en hefur einnig látið sjá sig í raunveruleikaþáttum.
Lögreglan mætti á staðinn stuttu seinna en Fofana fékk að keyra heim og var ekki talinn sekur í árekstrinum.
Gaffney áttaði sig ekki á því hver bílstjórinn væri fyrr en seinna en vinur hans hafði þetta að segja í samtali við enska miðla.
,,Þetta var ljótt slys og Dean vill meina að hann sé heppinn að vera á lífi,“ er haft eftir vini leikarans.
,,Hann var að reyna að komast í leigubíl þegar Lamborghini bifreiðin keyrði á hann sem varð til þess að hann féll til jarðar.“
,,Hann áttaði sig ekki á hver bílstjórinn væri til að byrja með en var sagt það skömmu seinna.“