Bolli Már Bjarnason er gestur í nýjasta þætti Íþróttavikunnar, sem kemur út á föstudögum á 433.is, Hringbraut.is og undir hlekk Hringbrautar í Sjónvarpi Símans. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Fyrrum knattspyrnumaðurinn og vandræðagemsinn Joey Barton hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum undanfarið. Þar hjólar hann í konur sem fjalla um karlafótbolta en á dögunum líkti hann tveimur þeirra meðal annars við hryðjuverkamenn.
„Þetta er allt rosa málefnalegt hjá honum,“ sagði Helgi í kaldhæðnislegum tón.
„Hann er að hjóla í þekkta menn eins og Gary Neville. Hann er það ruglaður að menn nenna ekki að svara honum,“ sagði Hrafnkell.
„Það er rosalega vondur staður til að vera á,“ skaut Bolli inn í.
Helgi rifjaði þá upp ummæli íþróttalýsandans ástsæla, Gumma Ben, um Barton árið 2012, er leikmaðurinn var rekinn af velli í leik gegn Manchester City.
„Er Joey Barton að fara út af hér? Það væri honum líkt að klúðra öll fyrir félag sitt með því að láta reka sig út af hér. Já, já. Hann er farinn í sturtu. Hann er vitleysingur, fæddur þannig,“ sagði Guðmundur í lýsingunni.
„Hann er gjörsamlega trylltur þessi vitleysingur. Það á að henda þessum manni í fangelsi og ekkert annað. Algjör aumingi sem á ekki heima í íþróttum.“
Klippan af Gumma Ben og umræðan í heild er í spilaranum.