Það hefur enn ekki verið slegið af borðinu að Óskar Örn Hauksson rífi fram takkaskóna með Íslands- og bikarmeisturum Víkings í sumar.
Óskar, sem er goðsögn í íslenskum fótbolta og þekktastur fyrir tíma sinn í KR, var í haust ráðinn styrktarþjálfari Víkings. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari liðsins, var spurður að því í viðtali við Fótbolta.net á dögunum hvort það kæmi til greina að hann spilaði eitthvað með liðinu.
„Ég myndi ekki útiloka það. Hann var með á æfingu um daginn, var langbesti leikmaðurinn. Við erum ekki að horfa á það, það er ekki krafa um það, en ég myndi ekki útiloka það,“ sagði Arnar þá.
Fjölmiðlamaðurinn og sparkspekingurinn Ríkharð Óskar Guðnason, Rikki G, var mættur í nýjasta þátt af Blökastinu og þar spurði hann Auðunn Blöndal út í stöðuna. Auðunn er mágur Óskars.
„Ég verð að fá að vita þetta. Er ekki bara Óskar Örn að fara að spila með Víkingum næsta sumar?“ spurði Ríkharð.
Auðunn telur hann allavega eiga skilið að fá að kveðja knattspyrnuvöllinn með stæl.
„Hann segir ekki. En Arnar Gunnlaugs sagði í viðtali að hann væri bestur á æfingum. Ef einhver á skilið alvöru kveðjuleik í þessari deild er það Óskar Örn Hauksson. Hann ætti að fá einn leik með allavega, ef það er einhver í Fossvoginum að hlusta. Einn leik á geitina,“ sagði Auddi.